Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 14.1.2011 | Björgvin Kristjánsson/Ragna
Bergþóra á Urðarbrekku

Ég er að horfa á mynd sem konan mín flosaði fyrir þrjátíu árum og þar má sjá konu sem er að leifa ungri dóttir sinni að gefa bæjarhröfnunum. Þá datt mér í hug saga sem afabróðir minn sagði mér eitt sinn þegar hann heimsótti mig og sá flos mynd konunnar minnar á veggnum.

Mér þótti svo mikið um söguna að ég skrifaði hana niður en frændi minn sagðist hafa heyrt hana þegar hann var drengur, en hann var nú kominn um áttrætt. Sagan byrjaði á þessum orðum „ Hrafninn er vitur fugl og vitrari en margur heldur og ég get sagt þér sögu sem sannar það“.

Kona sem Bergþóra hét bjó á bæ sem hét Urðarbrekka. Hún hafði misst móðir sína þegar hún var tólf ára gömul af slysförum en föður sinn missti hún tuttugu og tveggja ára. Þegar þar var komið spurði hreppstjórinn Bergþóru hvað hún ætlaði nú að gera en hún svaraði því strax til að hún ætli að búa áfram á jörðinni. Hreppstjóranum þótti það undarlegt því jörðin var afskekkt og hún var ein. „Þú ert fegursta konan í hreppnum, ljón greind og sögð tveggja manna maki við slátt og það er eflaust fjöldi manna sem vilja eiga þig fyrir konu“ sagði hreppstjórinn

Bergþóra þakkaði honum falleg orð í sinn garð sem væru eflaust vel meint en hún vildi þó ekki gifta sig af hagsýnis ástæðum því það myndi hún aldrei í lífinu gera svo það yrði eitthvað annað að koma til. Var þetta síðan ekkert rætt meira.

Lítilli smiðju hafði faðir hennar komið upp því hann þótti einkar laghentur. Þóttu ljáir sem hann smíðaði vera afbragðs vel unnir og var sagt að þeir sem fengið höfðu ljá hjá honum tækju öðrum fram í heyskap. Fáir vissu þó að þá ljái hafði Bergþóra smíðað en hafði hún lært iðnina af föður sínum og tók honum orðið fram við smíðina.Skip hafði strandað ekki langt frá fyrir mörgum árum og höfðu þau gott um járn, frá braki sem rak í land,

Þó Bergþóra væri vinsæl af öllum, þá var mjög góð vinátta við bóndann á Stóragili sem var næsti bær við Urðarbrekku. Það var bara klukkutíma gangur í góðu veðri milli bæja og þá var farið inn með hlíðinni og gengin hylla sem kölluð var Breiðhylla en hún var yfirleitt níu til tíu metra breið. Þar sem hún fór um gjá var hillan lítil sem engin og það sem verra var að hillan sem tók við var ofurlítið neðan við hylluna sem maður kom frá,
ef komið var frá Urðarbrekku og var staður þessi kölluð Ófæra.

Þar fyrir neðan hylluna var fjörutíu til fimmtíu metra berg í sjó fram og hallaði það allt innundir sig svo algjörlega var útilokað að lifa það af að fara þar framaf. Hillan var grösug vegna þess að fugl verpti í hyllunum ofar í fjallinu og sótti féð í grasið og hætti sér því oft út á hylluna. Var það oft að fé var rekið í þarafjöru báðumegin fjallsins og stundum vantaði kindur að kveldi Bergþóra og bóndinn á Stóragili voruþó ekki kvíðin þó svo að kindur vantaði í hópinn því þau vissu að vel yrði séð um þær á hinum bænum.

Bergþóra lenti í slysi, ellefu ára gömul en þá datt hún svo illa úti á túni að hún komst ekki heim. Foreldarnir upplifðu það að hrafnarnir kæmu með óskapa óhljóðum og sagði bóndinn að þeir hefðu flogið á rúðuna í glugganum. Þau hlupu út til að kanna hvað í ósköpunum hafði skeð. Hrafnarnir flugu til dótturinnar þar sem hún lá og þrátt fyrir sársaukan kallaði hún til þeirra og þeir settust hjá henni og leyfðu henni að klappa sér. Pabbi hennar trúði henni varla enda þótti það sjaldgæft að hrafnarnir væru svo gæfir og taldi ástæna vera þá að þeir væru svangir og hann ætlaði því að gefa þeim duglega í framhaldinu.

Sem betur fór var hún óbrotin og sárin greru fljótt. Hún hafði vanist því frá barnæsku að bæjarhröfnunum væri gefið og eftir að foreldrar hennar dóu hélt hún uppteknum hætti. Það var hlegið að henni í hreppnum því hún súrsaði í þrjár tunnur fyrir hrafnana lungu og barka sem hún fékk jafnan hjá Guðmundi bónda á Stóragili. ,

Hún hélt áfram að smíða ljái en þeir þóttu dýrir. Reyndar spurðist það út að hún ætti það til að gefa fátækum ljái og fólk kom til hennar og vildi fá ljá og sagðist ekki geta borgað sökum fátæktar. Svar hennar var þá jafnan að hún ætti ekki ljá fyrir þetta fólk. Oftar en ekki kom í ljós að einmitt þetta fólk átti nóg af peningum til að borga. Bergþóra vissi hverjir voru efnaðir og hverjir ekki.

Atburður sá sem nú verður sagt frá skeði þegar Bergþóra var tuttugu og átta ára gömul og hafði búið í sexár einsömul á Urðarbrekku. Það hafði geisað hræðilegt óveður í ellefu daga, mikil snjókoma og rok, hún hafði varla komist í fjósið til að mjólka kúna og gefa fénu sem taldi um hundrað kindur. Á 12 degi sló í logn en ofankoma var mikil og svo dimmt og skyggnið aðeins nokkrir metrar. Bergþóra hafði áhyggjur af því að hrafnarnir hefðu soltið í óveðrinu og þennan dag bjó hún sig út með mat handa þeim. Hrafnarnir litu ekki við matinn og flögruðu undan og Berþóra elti þá lengra og lengra og var orðin bálill yfir þessu vanþakklæti hrafnanna. Hún óð fönnina þar til þeir allt í einu þáðu matinn og hámuðu í sig góðgætið. Í sömu svipan heyrði hún mikinn dynk og varð þess áskynja að hún stóð í útjaðri snjófljóðs sem fallið hafði rétt fyrir aftan hana. Hún var þess fullviss að hrafnarnir hefðu bjargað lífi hennar. Þegar hún gekk til baka sá hún að flóðið hafði grafið bæinn hennar og fjósið sem lá bak við bæinn..

Nú voru góð ráð dýr því því nú yrði hún að fara inn Breiðhyllu og það fannst henni ekki góð tilhugsun. Hrafnarnir flögruðu á undan henni og voru nærri og það mátti halda að þeir væru að vísa henni veginn. Stundum létu þeir ófriðlega, flugu framanað henni og görguðu mikið. Oftar en ekki voru þeir það nálægt að hún næstum gekk á stélið á þeim og þeir létu ófriðlega ef hún fór af leið. Hún giskaði á að þau hefðu verið að minnsta kosti tvo tíma á ferð þegar hún skyndilega datt niður úr snjónum og fann vatn undir fótum sér.

 

Þá vissi hún að Þverá væri undir fótum hennar en áin rann rétt neðan við Stóragil og þá vissi hún að hún væri hólpin, hún hafði sloppið fram hjá Breiðhyllu án vandræða í fylgd hrafnanna. Bæjarhrafnarnir frá Stóragili tóku fagnandi á móti henni og hrafnarnir sem fylgt höfðu henni leiðina fylgdu henni líka fast eftir og flugu með henni áleiðis á Stóragili.

Þar var vel tekið á móti henni, Sigríður húsfreyja dreif hana úr hverri spjör, hitaði teppi og lagði að henni og hún náði sér fljótt. Bergþóra sagði frá því hvernig hrafnarnir hefðu bjargað sér frá að lenda í flóðinu og hvernig þeir hefðu leiðbeint sér inn Breiðhyllu í kafaldsmuggunni og þótti öllum sagan ótrúleg.

Tvö börn áttu hjónin á Stóragili, dreng og stúlku. Drengurinn var rúmlega tvítugur, þótti myndar piltur, Símon að nafni og vel gefin, systir hans Laufey var sautján ára þegar hér var komið við sögu.

Það stytti fljótlega upp eftir að Bergþóra kom að Stóragili og sól skein í heiði. Bóndasonurinn Símon fór þá ásamt nokkrum yfir Breiðhylluna til að kanna með búfénaðinn og var fjósið grafið upp og kýrinn fannst þar heil á húfi. Fjárhúsin voru óhult á hólnum og var fénu gefið. Bærinn var svo grafinn upp en hann var að mestu óskemmdur eftir fljóðið þó hafði þakið fallið inn að hluta en það var lagað. Fögnuðu allir þeim góðu fréttum ekki síst Bergþóra sem sá nú fram á það að geta haldið áfram að búa á Urðarbrekku..

Þegar Berþóra hugðist halda heim á ný fór Símon með henni til að aðstoða hana við búskapinn. Þegar hann var búinn að dvelja að Urðarbrekku hjá Bergþóru í þrjár vikur sagði hún að nú væri hún fullfær um að vera ein og rétti hún honum stóra peningafúlgu og sagði honum að nú gæti hann farið aftur heim. Símon starði á peningana og Bergþóru til skiptis og sagðist ekki hafa komið til hennar vegna peninganna heldur til að hjálpa henni eftir þær hörmungar sem á henni hefðu dunað. Honum þótti orðið vænt um féð og þekkti það allt með nöfnum og innst inni vildi hann vera áfram. Hann tók þó saman föggur sínar með semingi og fór án þess að snerta peningana.

Fjórum dögum eftir að Símon fór, kom Guðmundur á Stóragili að Urðarbrekku og fagnaði Bergþóra honum vel, en hann virtist vera í þungu skapi og fann hún það fljótt, og spurði hvað væri að. Hann sagði að það væri ekki gott með Símon son sinn því síðan hann hefði komið frá Urðarbrekku hefði hann hvorki etið né sofið og það hafði verið fyrst um morguninn sem hann fékkst til að segja hvað amaði að. Hann var þá orðin ástfangin af Bergþóru og var ómögulegur maður vegna þessa.

Viðbrögð Bergþóru við þessu, voru þau að hún gekk til Guðmundar, sló höndum um háls honum og lagði vanga sinn að brjósti hans og byrjaði að gráta ofsalega. Ósjálfrátt tók hann um ungu konuna, það leið löng stund, þar til að gráturinn sefaðist og hún leit upp. „ Þú varst besti vinur foreldra minna og hefur verið besti vinur minn, síðan ég man eftir mér“ sagði Bergþóra „Ég gat ekki gert neitt annað,en að senda hann heim“.

„Mér leið illa ef ég sá hann ekki og þú veist ekki hvað þetta var mér erfið ákvörðun að senda hann í burtu. Ég fann að ég réði ekki lengur við tilfinningar mínar gagnvart honum og ég var búin að sætta mig við að bera harm minn í hljóði það sem ég ætti eftir ólifað sagði Bergþóra snökktandi.“ Ef hann vill taka mig sér fyrir konu og þið Sigríður samþykkið það, þá finnst engin hamingjusamari kona en ég í heiminum“

Það varð úr að Símon og Bergþóra giftu sig og tóku við búi að Stóragili þegar Laufey dóttir þeirra hjóna hélt til mennta. Þau hjón eignuðust fjögur börn, tvær stúlkur og tvo drengi, allt myndar fólk.

Það var venja þeirra hjóna er þau komu til kirkju eða á önnur mannamót, að þau héldu í hendi á hvort öðru og jafnvel hölluðu vanga að vanga en það var ekki algengt á þeim tíma.

Sagt var að mörg konan, hefði sagt við mann sinn: „ekki sýnir þú mér svona ástúð, eins og Símon og Bergþóra sýna hvort öðru“. Var sagt að það hefði orðið algengara að sjá pör eða hjón leiðast og þökkuðu það sumi þeim hjónum.

Þegar Bergþóra varð níræð og var hjá syni sínum sem bjó þá að Stóragili, hafði hún misst mann sinn tveimur árum áður. Þá kom sagnaritari þangað og vildi að hún segði sér frá lífshlaupi sínu og meðal þess sem hún sagði var:

„Ég er trúuð kona, ég lærði bænir sem barn og hef kennt börnum mínum þær. Ég hef oft þurft að grípa til þeirra, og alltaf með góðum árangri. Ég efast ekki um tilvist Guðs, mildi hans og gæsku. Ég átti yndislegan mann, sem elskaði mig og ég elskaði hann. Ég á yndisleg börn og barna börn, sem veita mér gleði og og hlýju á hverjum degi og ég er innilega þakklát fyrir allt sem mér er gefið. En þó get ég ekki neitað því, að stundum læðist að mér sá grunur að allt þetta eigi ég tveimur hröfnum að þakka. En stjórnar Guð ekki fuglum himinsins eins og öllu öðru“ sagði Bergþóra að endingu „Er ekki sagt að Guð launi fyrir hrafninn?? „

Björgvin kristjánsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.