Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 8.7.2010 | Björgvin Kristjánsson
Minn besti vinur

Sigurður Pálsson sem oftast var nefndur Siggi á Bakka, var einn besti vinur sem ég eignaðist um ævina. Það var dæmigert með hann, að þrátt fyrir öll þrekvirki sem hann vannmþótti honum aldrei neitt um þau. Hann var ótrúlega þrekmikill og harður af sér, sem manni þótti skrýtið, eins mikið ljúfmenni og hann var.

Það var uppáhaldi hjá okkur á kvöldin að fara upp í Breiðabólshlíðina og renna okkur á skíðum. Það þýddi lítið fyrir mig að fara eins hátt og hann, ég stóð það aldrei. Samt hældi hann mér alltaf fyrir hvað ég væri duglegur. „Ekki eins og þú“, sagði ég þá við hann en hann svaraði um hæl að það væri allt annað því hann væri svo mikið eldri en ég.

Þó eru mér minnisstæðust þau þrekvirki sem hann vann í sambandi við skepnur og svo auðvitað þegar hann bjargaði lífi mínu.

Það hændust öll dýr að Sigga, fullorðinn hundur, sem hét Kolli fór að iðka það að elta hann hvert sem hann fór og þegar hann kom í “Víkina” endaði það með því að hundurinn elti hann heim. Eftir það fylgdi hann Sigga hvert sem hann fór, nema hann segði honum annað. Guðmundur Ásgeirsson á átti þennan hund. Sigga þótti aldrei of mikið á sig lagt ef um skepnur væri að ræða því hann elskaði dýrin.

Eitt haustið löngu eftir göngur kom sú frétt, að sjómenn sæju kind og lömb í Efribreiðhillunni á Stigahlíðinni þau væru reyndar fyrir neðan hilluna og virtist eins og kindin kæmist ekki til lambanna og að hún stæði í svelti. Það hafði snjóað undanfarna daga og frost hlaupið í snjóinn svo öllum þótt útilokað að sinna þessu að svo stöddu. Siggi vildi þó reyna að bjarga skepnunum og það var ekki oft sem ég varð reiður vini mínum en þarna varð ég öskuillur, ég gleymi því aldrei. „Þú ert snælduvitlaus“ sagði ég, „það má þykja gott ef þú kemst upp í Efrihlíðina hvað þá inn Breiðhylluna í þessu færi“. Hann leit feimnislega á mig, og sagði. „Já en kindin er í svelti“. Þegar ég sá að engu tauti var við hann komið bauð ég honum mannbrodda sem ég átti og hann lofaði að hafa þá með sér til að róa mig.

Mér leið illa þennan dag, að vita vin minn í þessari hættu. Ég var annað slagið að gá, en sá hann aldrei koma og það var orðið liðið á dag, þegar ég gekk yfir á Meiribakka. Ég fann vin minn, þar sem hann sat við borð, með handlegginn undir andlitinu og hristist af gráti og ég hafði aldrei séð hann svo illa á sig kominn. Mér varð strax ljóst að eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir. Hann leit upp þegar hann heyrði mig koma og sagði að hundurinn Kolli væir dauður og það væri sér að kenna. Ég bað hann því að segja mér sögu sína og hvað hafði gerst þá um daginn, það leið þó löng stund þar til hann gat sagt mér hvað hafði komið fyrir.

Breiðhillan hafði verið mjög erfið, snjór og klaki var í henni, og hann var að hugsa um að snúa frá en hugsunin um féð sem var þarna í svelti kvaldi hann svo hann lét sig hafa það að reyna að koma því til hjálpar. Það versta var að það hafði snjóað ofan á klakann, svo hann var mjög varasamur, það munaði oft engu að hann væri komin niður á skriður, fjögur hundruð metra fall.
Þegar hann komst að kindunum gekk honum vel að ná ánni upp og þá sá hann að þetta var hún Botna hennar Línu Dalrósar, með gimbur og hrút en hún var alltaf tvílembd. Við fikruðum okkur heim á leið, kindin var fyrst, svo lömbin ég og hundurinn Kolli rákum lestina. Við vorum að fara yfir svellbólgið gil, þegar lambinu sem nær mér var, skrikaði fótur og hentist framm af brúninni. Ég gat ekkert gert, bara horfði á og í sama mund rak Kolli upp vein, og þegar ég leit til baka, þá sá ég hann renna framaf. „Þú veist ekki hvað mig langaði til að láta mig fara líka“ sagði Siggi „mér var svo kalt á höndunum þar sem ég var að skríða þarna, og leið svo illa og þetta væri allt mér að kenna“.

Hann hélt áfram eftir langa stund, krókloppinn á höndunum, með gogginn en Siggi hafði alltaf með sér gogg þegar hann fór á fjöll, til að geta stoppað sig ef hann lenti í þannig aðstæðum . Hann sýndi mér einu sinni hve fimur hann var með gogginn, eldsnökt brá hann honum upp á bjálka sem þeir notuðu til að hengja upp fé, sem þeir slátruðu og í einu vettvangi hafði hann sveiflað sér upp á bjálkann. Aldrei montaðist hann af því sem hann gat, heldur var hann afsakandi og brosti feimnislega og sagði gogginn hafa bjargað lífi sínu oftsinnis.

Ég sagði hann heppinn að sleppa lifandi frá þessum raunum í fjallinu og jánkaði beiðni hans um að koma með sér inn á skriður og finna Kolla og lambið. Hann tók með sér skóflu og við héldum til fjalla og vorum fljótir að finna þau. Það var greinilegt að lambið var gjörsamlega ónýtt til að hirða nokkuð af því vegna þess að vömbin hafði splundrast og kjötið var gegnsýrt af gori.

Mér þótti nóg um hvernig Siggi gekk frá Kolla hann gat ekki hugsað það til enda að fuglarnir eða tófan myndu ná til hans og hakka hann í sig. Fjallið er 638 metra hátt, 150-200 metrum frá fjallsbrún er Efribreiðhillan. Er hún sumstaðar breið og grasi vaxin, og fuglar verpa þarna svo grasið fær áburð af fugladritinu sem verður svo kjarnmikið að fé sem kemst einu sinni á bragðið þykir það svo mikið lostæti að það sækir í það ár eftir ár. Sumstaðar er engin hilla svo nafnið Efribreiðhilla er frekar villandi, þar eru bara gil og gjár og í því felst aðalhættan. Það er mjög misjafn hvað gilin eru erfið að komast yfir, en þegar það er tekið með í reikninginn að þetta er í 400 metra hæð, þá er þetta ekki fyrir huglausa. Stundum eru gilin auð, bara bergið sem snarhallar niður, en oftast er lausagrjót í þeim sem hrinur úr fjallinu, en því er ekki hægt að treysta. Það getur hent þegar maður stendur í grjótinu þá rennur það á stað með mann, þess vegna er oftast hlaupið yfir þau, en það er vonlaust í fljúgandi hálku. Hvernig vinur minn fór að þessu skildi ég aldrei, og mun aldrei skilja.

Siggi var ekki ókunnur Botnu hennar Línu Dalrósar, þau höfðu barist árum saman. Eitt árið hafði snjóað lengi og Botna komin inn í Efrihlíð þegar smalað var, hún rakst eins og hvert annað fé niður í Skálavík og var tvílembd eins og vanalega. Það hafði verið leiðinda veður langvarandi tíð, en veðrið var orðið gott þegar hér var komið við sögu. Í hópnum hafði Botna fundið lömbin sín og hljóp með þeim áleiðist heim. Þegar hópurinn var kominn frammundir Ásbjarnarstein rauf Botna sig úr hópnum með bæði lömbin og hélt til fjalla. Mér varð litið til Sigga, vinar míns og sýndist hann vera að detta af baki Roða, hestinum sem hann reið en það var ekki, heldur hent hann sér af baki og kom niður á fæturna. Hann þaut eins og örskot á eftir ánni. Við sáum hvernig þau hlupu upp alla hlíðina og í Efrihlíð en hann elti féð sem hljóp upp efrafjallið og að lokum hvarf hann sjónum. Við héldum áfram að reka hópinn. Það var ekki fyrr en við komum á heiðina að Siggi kom með féð niður fjallið lafmótt en þá hafði hann elt það uppi og komið því niður til okkar. Ég er vissum ef Siggi hefði tekið þátt í þolhlaupum, þá hefði hann unnið íslandsmet í þeirri grein.

Eftir að harmleikurinn sem varð á Stigahlíðinni með Botnu ákvað Lína Dalrós að láta lóga kindinni. Siggi frétti ekki af þessu fyrr en það hafði verið gert og varð hann rosalega sár. „Bara ef hún hefði boðið mér að kaupa hana, þá hefði ég borgað það verð sem hún hefði sett upp“ sagði hann, Það var eins og hann væri að missa þarna góðan vin.

Þegar ég var sautján ára ákváðum við að fara inn á Ísafjörð og skemmta okkur saman, það var um vor og snjóa hefði ekki leyst að mestu leyst. Við þræddum veginn en á honum var snjór sumstaðar og mér er það minnisstætt hve mér þótti hrikalegt að fara snarbratta skaflana á hestunum. Ég var lafhræddur en Siggi hló bara en það var oft sem hann hló þegar ég var hræddur þó var aldrei nein hæðni í hlátri hans.

Við fórum á Ísafjörð og hann keypti eina og hálfa flösku af brennivíni, ég bauðst til að leggja til peninga, því ég átti þá, en það kom ekki til mála því ég væri alltof ungur. Við gistum eina nótt á Herkastalanum og borðuðum hjá frú Hösler sem mig minnir að hafi verið í sama húsi og Mánakaffi er núna. Það var svínasteik sem við fengum að borða og ég gleymi henni aldrei, hvað hún var ótrúlega góð, og sósan, nei ég gleymi henni aldrei. Frú Hösler var stórfenglag kona, svo yndislega hlý.

Það var ótrúlega margt sem við Siggi gerðum okkur til gamans. Við fórum stundum á færi á skektu sem var til í Skálavík. Eitt skiptið höfðum við fiskað vel og gættum ekki að okkur fyrr en við höfðum rekið langt inn á Ísafjarðardjúp. Við vorum komnir innan um trillur sem þarna voru á skaki. Þar kom að okkur Hálfdán Örnólfsson sem við þekktum báðir, hann spurði okkur hvert við værum að fara. Við sögðum honum að við hefðum gleymt okkur, það hefði fiskast svo vel. „Nú verðið þið í fjóra eða fimm tíma að róa til baka“, sagði hann og bauðst til að taka okkur í tog. Það var nú aldeilis vel þegið, hann dró okkur upp undir fjöru. Seinna átti ég eftir að vinna með þessum vini vínum í tvo áratugi.

Ég hitti Palla son Sigga í Skálavík fyrir nokkrum árum, hann bauð mér rauðvín að drekka, það var ótrúlegt upplifun, það var sem að hitta pabba hans, svo hlýr og indæll, hann er svo ótrúlega líkur karli föður sínum sínum, mér fannst ég hafa vin minn hjá mér aftur.

Þegar Siggi bjargaði lífi mínu:Þegar ég var 15 ára skrifaði ég smásögu. Þá var líflegt samband milli Skálavíkur og Galtavita með talsstöðum. Óskar Aðalsteinn tithöfundur var vitavörður á Galtarvita og las upp sögur í talstöðina, svo sem Kalinn á hjarta, og Tess. Mig langaði til að Óskar fengi að sjá söguna sem ég hafði skrifað og kannski myndi hann lesa hana upp í talstöðinni. Ég spurði Sigga hvort hann væri tilbúin að koma með mér til Galtarvita og sína Óskari söguna og það var auðsótt mál eins og flest annað hjá Sigga.


Við héldum til Galtarvita snemma dags og fórum Ófæruna, það er að segja með sjónum og það gekk allt vel. Þegar við komum til þeirra hjóna Óskars og Hönnu þá var okkur vel tekið svo við dvöldum þar dágóða stund í góðu yfirlæti. Hanna var falleg kona og hlýleg við okkur og töfrandi og var að verða dimmt þegar við vorum tilbúnir að fara til Skálavíkur.

Ég spurði Sigga hvort það væri ekki öruggara að fara fjallið og Bakkaskarðið því ég taldi það vera hættulausa leið en lengri. Siggi vildi fara fjöruna og var öruggur um að við myndum ná heim í tíma. Það dimmdi meira og meira eftir sem við gengum inn fjöruna og þegar við komum að Ófærugilinu var komið svartamyrkur.

Myrkrið var svo svart að ég reyndi að leggja andlitið niður að aurnum og ég skynjaði hann ekki fyrir en ég rak nefið í hann. Bátur fór hjá og okkur gekk mun betur að ganga á meðan að það varði, þó það væri bara toppljósið sem lýsti, en svo var það búið og við vorum þarna tveir á gangi í bika svarta myrkri. Ég var rosalega hræddur.

Það er gil innst inni í gjánni með lausagrjóti og við urðum að fara aðeins niður það, því hillan Skálavíkurmegin er aðeins neðar en Galtarvita megin, Ég náði í steinkoll til að halda mér í og þegar ég losaði takið um steininn og ætlaði að herða mig í að halda áfram yfir, kallaði Siggi að hann væri kominn yfir.

Þá vissi ég ekki fyrr en kollurinn á steininum sem ég hjélt um losnaði og datt niður með mér, við þetta brá mér svo mikið, að ég hreinlega fraus af hræðslu. Þetta var bara um einn meter sem maður þurfti að renna niður brattann og þá voru fjöru tíu metrar niður í sjó og ekki bara snarbratt bergið, heldur hallar það allt innundir sig.

Ég kallaði til Sigga að ég þyrði ekki lengra. „Ekki þó ég komi til baka og leiði þig yfir“ spurði hann, en ég neitaði því hágrátandi. „Þá verð ég að fara heim og ná í lugt“, sagði hann og ég sagðist bíða á meðan. Siggi lagði af stað heim eftir lugktinni og lofaði að vera eins fljótur í förum og hann mögulega gæti.

Það var ekki hættulaust, því að þegar maður kemur inn í fjöruna eru víða gríðarlegir steinar með glufu á milli og eru þeir svo stórir að það er oft fimmtán tuttugu metrar niður í fjöru. Það er ekkert mál að hoppa yfir þetta í björtu og velja sér leið, en í svarta myrkri er það mun erfiðara. Vissulega var hægt að fara hærra í fjallið, en það var mikið erfiðari leið, svo að mér leið ekkert vel meðan ég beið eftir vini mínum og hafði áhyggjur af ferðum hans eftir luktinni.

En mikið skelfing varð ég glaður þegar ég sá ljósið koma og þessi besti vinur minn kom og studdi mig yfir gilið. Ég ætlaði ekki að geta hreyft mig því ég var orðinn svo stirður. Ég gleymi því aldrei, þegar ég var að labba yfir að Breiðaból og í myrkrinu, datt niður í læk, hvað ég naut þess, vitandi það að það var engin hætta.

Siggi kynnti mig fyrir stúlku, sem átti eftir að verða konan mín. Ég var giftur henni í fjörtíu og eitt ár og tvo mánuði. Með henni átti ég fjóra syni og á núna átta afabörn og eitt langafabarn. Það má kannski segja að ég eigi honum Sigga á Bakka að þakka, hamingju mína og lífshlaup allt.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.