Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 4.9.2009 | Baldur Smári Einarsson
Mestu eytt í tvö kjördæmi

Ég varð hálf miður mín þegar ég horfði á sjónvarpsfréttirnar á miðvikudagskvöldið. Þar var fréttastofan að sundurliða kostnað vegna vegaframkvæmda undanfarin ár. Megininntak fréttarinnar var að framlög ríkisins til vegaframkvæmda hefðu margfaldast á nokkrum árum og að stærstur hluti þeirra færi til framkvæmda í tveimur kjördæmum, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Og svo lauk fréttinni auðvitað á þeim nótum að yfirvöldum í Reykjavík þætti of litlu fé varið til vegagerðar í Reykjavík.

Já ég varð miður mín þegar þessi frétt fór í loftið. Skyldi fréttastofan e.t.v. ekki vita að á því herrans ári 2009 er t.d. ekki hægt að keyra frá Ísafirði til Reykjavíkur alla leið á bundu slitlagi? Ætli það séu margar þjóðbrautirnar á höfuðborgarsvæðinu sem séu ómalbikaðar í dag? Það hefði nú mátt bjóða fréttamanninum að hossast yfir Hestakleifina í sumar, já eða skoppa eftir vegunum á Barðaströndinni. Ég efast um að borgarbörnin létu bjóða sér svo frumstæða vegi.

Og hvers vegna er fréttinni valin sú hrokafulla fyrirsögn “Mestu eytt í tvö kjördæmi” ? Það er beinlínis látið að því liggja að þessir fjármunir komi að engu gagni vegna þess að það fari færri bílar um vegi á landsbyggðinni heldur en í höfuðborginni. Mér segir svo hugur að ástæðan fyrir því að Vegagerðin verji mestum fjármunum til vegaframkvæmda í þessum tveimur kjördæmum sé einfaldlega sú að þarna sé þörfin mest fyrir vegabætur. Bæði kjördæmin eru mjög stór að flatarmáli og um kjördæmin liggja margir vegir – sem oftar en ekki eru komnir vel til ára sinna og beinlínis orðnir hættulegir vegfarendum.

Samt finnst mér að vissu leyti gott að fréttastofa Ríkissjónvarpsins skuli hafa áhyggjur af því hvar fjármunum íslenska ríkisins sé eytt. Og þó fyrr hefði verið. Næsta frétt þeirra um ríkisfjármálin hlýtur að verða sundurliðun ríkisútgjalda eftir kjördæmum. Þar sem langflestar ríkisstofnarnir eru staðsettar í Reykjavík þá yrði sú samantekt eflaust mjög fróðleg.

Það skildi þó ekki vera að niðurstaðan yrði sú að mestu af fé ríkisins væri eytt í tvö kjördæmi.

Reykjavík norður og Reykjavík suður.

 

 

Baldur Smári Einarsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.