Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 24.5.2009 | Kristján Jónsson
Kemst Micran hringinn?

Undirritaður hefur áður ritað hér línur um verðlaunabifreið sína sem hlotið hefur nafnbótina "Sápustykkið" á hornskrifstofu yfirmanns rafmagns á Vestfjörðum, Halldórs Magnússonar. Ýmsir góðir menn hafa verið fullir efasemda um að Sápustykkið ætti langan líftíma fyrir höndum. Fer Dr.Haraldur Óli Ólason þar fremstur meðal jafningja en hann hefur í gegnum tíðina annast læknisskoðanir á sápustykkinu á bílasjúkrahúsi sínu í Hafnarfirði. Doktorinn hefur látið þau ummæli falla að sökum ryðs undir Sápustykkinu þá sé bara tímaspursmál hvenær eigandinn detti í gegn! Undirritaður verði því eins og steinaldarmaðurinn Fred Flintstone sem hljóp um göturnar með bifreið sína á öxlunum.

Sá sem þetta ritar hefur þó reynt að láta slíkt svartsýnistal sem vind um eyru þjóta enda hef ég ekki nokkra þekkingu á því hvort þessir spádómar séu studdir með rökum eður ei. Í byrjun árs var því farið með Sápustykkið í árlega skoðun. Bar þar helst til tíðinda að bifreiðin fékk skoðun án athugasemda og skartar nú 2010 miða bæði að framan og aftan eins og lög gera ráð fyrir. Nú kunna einhverjir að velta því fyrir sér hvort þessi frásögn geti staðist. Er þá rétt að geta þess að undirritaður er búinn að vinna einn skoðunarmann í sódómunni á sitt band. Sá er nefnilega fyrrum Micrueigandi og hefur undirritaður því uppi á þessum skoðunarmanni árlega. Í fyrsta skipti þegar til hans var leitað kom upp úr krafsinu að hann átti einnig eintak af Micru 93 árgerð og var að vonum ánægður með gripinn. Þegar undirritaður fór með sápustykkið til hans í skoðun á þessu ári þá kom í ljós að skoðunarmaðurinn er búinn að selja sitt eintak. Fékk hann 60 þúsund íslenskar krónur fyrir gripinn. Það var á þessum tímapunkti sem rann upp fyrir mér hversu miklir peningar eru í þessum Micrubransa.

Nú hefur sú hugmynd kviknað að gera Sápustykkið ódauðlegt. Hefur komið til tals í góðum hópi að gera heimildarmynd um Sápustykkið. Yrði reynt að komast að því hvort Sápustykkið kæmist hringinn í kringum landið og yrði gerð heimildarmynd um ævintýrið. Hægt yrði að ræða við bæði úrtölumenn og bjartsýnismenn áður en lagt yrði í ferðalagið. Á ferðalaginu gæti undirritaður skipst á fróðleiksmolum við bifvélavirkja úr hinum ýmsu byggðalögum hringinn í kringum landið. Ef þetta ætti ekki erindi á rauða dregilinn í Cannes þá er ég illa svikinn. Nú er bara næsta skref að athuga hvort búið sé að tæma styrktarsjóð Menningarráðs Vestfjarða en mér skilst að þangað sæki hugmyndaríkt fólk af áfergju.

Knús knús
Kristján Jónsson

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.