Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 18.11.2008 | Kristján Jónsson
Draumur Micru

Af því berast fregnir að ekki þyki góð latína að eiga Range Rover bifreið nú um stundir. Að spóka sig á slíkri bifreið geti beinlínis kallað fram ýmsar miður fallegar kenndir hjá samborgurunum og eytt upp því sem eftir er af kveikiþræðinum hjá góðborgurum. Hafa eigendur slíkra bifreiða lent í ýmsum miður skemmtilegum uppákomum á undanförnum vikum. Margt bendir nú til þess að eftir háðsglósur bílaáhugamanna á liðnum árum, þá standi ´93 módelið af Micru nú loksins uppi sem sigurvegari. Þetta eintak gengur jafnframt undir nafninu ,,Sápustykkið“ en sú nafngift fæddist á hornskrifstofu í Orkubúi Vestfjarða, nánar tiltekið hjá yfirmanni rafmagns á Vestfjörðum, Halldóri Magnússyni.


Þeir sem ætla sér að komast leiðar sinnar á Range Rover í borg óttans, þeir geta lent í ýmsum skakkaföllum, þar sem aðrir í umferðinni beinlínis meina þeim að komast leiðar sinnar. Einhverra hluta vegna nýtur sápustykkið þó hvarvetna velvildar í umferðinni og kemst leiðar sinnar á mettíma, þrátt fyrir að þetta eintak hafi sópað að sér öllum helstu verðlaunum á sínum tíma. Sú staðreynd virðist ekki vekja upp öfund. Ekki virðist það heldur nokkru máli skipta þó bílstjórinn sé kominn í beinan karllegg af mönnum sem ekki virða umferðarreglur. Það er greinilega sælt að vera fátækur því þeirra er Guðsríki á götum borgarinnar.


Ýmsir Vestfirðingar hafa nú einmitt notið góðs af því undanfarið hversu góðan aðgang sápustykkið hefur í umferðinni. Sjálfur aðalbókari Sparisjóðsins naut einmitt góðs af þessu á dögunum, þar sem hann komst á mettíma frá flugvellinum og í bónusverslunina hjá Adda og Kobba, til þess að kíkja á matrósarföt fyrir eigin brúðkaupsveislu. Einnig hefur helsta rokkstjarna okkar Bolvíkinga, Biggi Olgeirs, fengið viðlíka þjónustu þegar hann hefur komið í sódómuna til þess að skemmta lýðnum. Að áðurnefndum Dóra Magg ógleymdum, en þegar hann er sóttur á völlinn þá er jafnan farið á Grænan kost í hádeginu og á skemmtun hjá Philadelphia söfnuðinum um kvöldið.


Knús knús
Kristján Jónsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.