Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 10.4.2008 | Guðfinnur Einarsson
Óshlíðin bráðum no more

Í Hugrenningum í Hólshreppi að þessu sinni er gripið niður í frásögn sem Guðfinnur Einarsson skrifaði á bloggsíðu sína guf.fi

daginn sem undirritun samninga um gerð jarðganga undir Óshlíð fór fram. Hér fer frásögnin í heild sinni:

 

Í dag varð þá ljóst að framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng hefjast í maí. Þau munu þá koma í staðinn fyrir veginn um Óshlíðina sem er líklegast einn hættulegasti vegakafli á Íslandi. Kristinn Gauti frændi sagði um páskana þegar við keyrðum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar á leiðinni á Kaffi Edinborg að hann myndi líklegast sakna þess að keyra um Óshlíðina. Ég get ekki sagt að ég muni deila þeim söknuði þegar þar að kemur.

Á Óshlíðinni eru nú þegar þrír vegaskálar þar sem versta snjóflóða og grjóthruns hættan er. Þakið á öllum þeim skálum bera þess merki hversu mikið grjóthrun er í raun um að ræða. Annars staðar er búið að reisa stálvírs girðingar sem eiga að grípa verstu steinana og þau eru öll orðin vel veðurbarinn og ónýt eftir harða vetur og vonda hnullunga sem hafa náð að rífa niður vírinn. Á enn öðrum stöðum er svo búið að hlaða upp stórum og miklum stálkössum fyllta með grjóti sem eiga að dempa höggið við verstu steinana. Þeir eru líka byrjaðir að láta á sjá. Í þau skipti sem ég keyri þarna á milli (sem er ekki oft) þá verð ég nánast alltaf var við grjót á veginum og stundum mikið sár í malbikinu þar sem annað hvort liggur steinn eða nýlega verið fjarlægður steinn. Orðið steinn er líklegast ekki nógu lýsandi en bjarg er á móti ofsögum sagt, þó stundum eiga það líklegast vel við.

Vegurinn um Óshlíð er eina vegasamgangan við Bolungarvík og því sjálfgefið að Víkarar og aðrir þurfa reglulega að fara um þennan veg. Fólk sækir vinnu þarna á milli og krakkar fara í menntaskólann á Ísafirði. Fjarlægðin á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar er ekki nema eins og á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og því um eitt atvinnu og byggðarsvæði að ræða. 

Báðar myndirnar (sem fylgja þessari frásögn) eru teknar 1. maí 1990, en þann dag lenti pabbi í snjóflóði á veginum ásamt einhverri konu. Hann hafði komið vestur með flugi og var að koma labbandi frá einum vegaskála yfir til annars því á milli hafði fallið snjóflóð. Ég, mamma og Sigrún systir biðum þar og ætluðum að keyra hann heim. Skyndilega féll annað sjóflóð. Drunurnar sem því fylgdu og svo tilfinningin þegar maður sá snjóinn spýtast inn um gluggana á vegskálanum er eitthvað sem þá 7 ára pjakkurinn gleymir seint ef aldrei. Svo tók við biðin eftir því hvort fólkið manns myndi koma labbandi yfir það snjóflóð líka.


Pabbi sagði eftir á að flóðið hefði verið byrjað að ná í fæturna á honum og það var þá sem hann ákvað að sleppa ferðatöskunum sem hann þangað til hafði haldið á. Það var því ekki spurning um metra heldur sentímetra hvort pabbi og konan myndu sleppa.

Ég mun því ekki sakna Óslhlíðarinnar. Þar geymi ég eina af mínum verstu minningum.

 

Hægt er að smella á tengil hér fyrir neðan til að sjá fleiri myndir.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.