Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 9.7.2010 | Viðskiptablaðið
Endurhannaðir kanóar vekja athygli

Í Viðskiptablaðinu í gær er greint frá því að Bátagerð SE í Bolungarvík hafi hafið framleiðslu og sölu á endurhönnuðum kanóum úr trefjaplasti sem eru stöðugri en hefðbundnir kanóar. Svanur Elíasson bátasmiður segist hafa unnið að undirbúningi smíðinnar í allan vetur. „Ég smíðaði frumgerðina í haust eftir teikningu sem ég náði í á netinu, en hún er frá árinu 1943. Ég breytti henni aðeins og smíðaði síðan frumgerð og tók mót af henni. Báturinn er svo steyptur í trefjaplast og hefur lukkast ansi vel þótt ég segi sjálfur frá. Samkvæmt teikningunni átti hann að vera 91 sentímetri að breidd en ég breikkaði hann upp í 106 sentímetra. Þá er hann 4,63 metrar að lengd. Báturinn er því mjög stöðugur. Hann ber tvo fullorðna og barn eða jafnvel þrjá fullorðna. Það er loftþétt rými í miðjunni sem nota má sem þóftu þannig að hann ber þetta alveg. Þá flýtur hann þótt hann fyllist af vatni. Báturinn hentar vel sem veiðibátur hvort heldur er á stöng eða skotveiði. Það má hæglega koma 150 kg. af fugli eða fiski um borð.“

Svanur segist ekki vita til að aðrir framleiði kanóa hér á landi. „Þetta er því algert frumkvöðulsstarf.“ Svanur er svo að leggja drög að annarri gerð af þessum kanó sem á að vera með þveran skut svo hægt sé að festa á hann mótor. Fleiri gerðir kanóa eru samt á markaði hérlendis en þeir eru innfluttir. Svanur gefur ekki sérlega mikið fyrir þá hönnun enda séu þeir kanóar mjög mjóir, 60 sentímetrar að breidd og að sama skapi burðarlitlir og óstöðugir.

Fáanlegir í mörgum litum
Bátarnir hans Svans fást framleiddir í mörgum litum eftir óskum kaupenda en staðalliturinn er mahóníbrúnn. „Mér finnst sá litur koma best út á þessum kanóum enda líkast upprunalegu bátunum. Það er annars hægt að fá þá í hvaða lit sem er en þá þarf að sérpanta bátana.“ Kanóarnir henta vel sem fjölskyldubátar og til veiða hvort heldur er með stöng eða til skotveiði. Einnig henta bátarnir vel sem leikbátar fyrir klúbba og sumarbúðir eða sem útleigubátar ferðaþjónustuaðila. Einn slíkur var einmitt kaupandi að fyrsta bátnum sem afhentur var frá Bátagerð SE í Bolungarvík. Var það Hrólfur Vagnsson sem rekur ferðaþjónustu á Hesteyri í Jökulfjörðum. Var sá bátur afhentur með viðhöfn á veitingastaðnum VaXon í síðustu viku.

Stillir verðinu í hóf
Svanur segir að það taki um viku að framleiða hvern bát. Verðinu stillir hann í hóf og kostar hver bátur 230.000 krónur. „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, ekki síst þar sem verðið er svo lágt miðað við gæði. Það hafa bæði ferðaþjónustuaðilar og einstaklingar verið að hringja í mig svo þetta lítur vel út.“


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.