Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Íþróttir | 31.1.2015 11:42:27 |
Bragi er íþróttamaður ársins

Hestamaðurinn Bragi Björgmundsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2014 í Bolungarvík á árlegu hófi sem haldið var í Félagsheimili Bolungarvíkur í gær. Bragi hefur stundað hestamennsku af mikilli fagmennsku í áratugi og eru prúðmennska og samviskusemi einkunnarorð sem samferðamenn velja honum.

 

Bragi, sem nú er kominn á áttræðisaldur, gerði sér lítið fyrir og varð í 1. sæti í bæði A og B flokki gæðinga og var kjörinn knapi mótsins á félagsmóti Storms á Söndum í Dýrafirði sl. sumar. Vert er að geta þess að keppni hestamennsku er að því leiti sérstök að knapinn stendur einn að þjálfun sinni og hestsins og þarf að sýna mikinn aga og eljusemi.

 

Að þessu sinni voru fjórir íþróttamenn tilnefndir til íþróttamanns ársins í Bolungarvík. Auk Braga voru það Jón Egill Guðmundssson sem þótti sýna góðan árangur í alpagreinum skíðaíþróttarinnar, Nikulás Jónsson sem tók miklum framförum sem knattspyrnumaður hjá meistaraflokki BÍ/Bolungarvíkur og Stefán Kristinn Sigurgeirsson sem hefur tekið miklum framförum í sundi.

 

Þá fengu nokkrir íþróttamenn viðurkenningar fyrir árangur og framfarir í íþróttum á árinu. Þannig hlutu þeir Guðmundur Páll Einarsson, Jóhann Samúel Rendall og Magnús Baldvin Birgisson viðurkenningu fyrir góðan árangur í knattspyrnu. Oddfreyr Ágúst Atlason fékk viðurkenningu fyrir góða ástundun og framfarir í körfuknattleik. Fyrir góðan árangur og ástundun í sundi fengu þau Guðný Ása Bjarnadóttir, Jónína Arndís Guðjónsdóttir og Kristinn Hallur Anarsson viðurkenningu og karlasveit Golfkúbbs Bolungarvíkur fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í sveitakeppni Golfsambands Íslands.

 

Fræðslumála- og æskulýðsráð veitti einnig þeim Jónasi Leif Sigursteinssyni og Laddawan Dagbjartsson viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu almenningsíþrótta. Jónas hefur verið formaður Ungmennafélags Bolungarvíkur og helsti þjálfari félagsins til margra ára og primus motor íþróttastarfs í Bolungarvík. Laddawan hefur verið með líkamsrækt fyrir almenning í Íþróttamiðstöðinni Árbæ í langan tíma og hefur þannig bætt heilsufar Bolvíkinga með framlagi sínu.

 

Það er fræðslu- og æskulýðsráð Bolungarvíkur sem stendur fyrir vali á íþróttamanni ársins og tekur ráðið við tilnefningum um íþróttamann ársins frá bæði íþróttafélögum og bæjarbúum. Hófið sem haldið er til heiðurs íþróttamanni ársins er orðið að árlegri uppskeruhátíð bolvískra íþróttamanna þar sem bæjarbúum gefst kostur á að samgleðjast með íþróttamönnunum.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.