Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 22.12.2009 | Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Örlagadagurinn - Jólasaga

Hún stóð við krossinn og leit niður í fjöruna og horfði á ölduna kastast upp á sandinn og báruna brotna við ströndina. Tunglsskinið varpaði bjarma á fuglinn í fjörunni sem hörfaði undan ógnarkrafti ægis og settist upp í klettabeltið í öruggt skjól. Andartakið ljómaði af minningum æskuáranna og stórbrotin fjöllin breiddu vestfirskan faðminn á móti þessu barni sínu sem var á leiðinni heim.

 

Já, hún var á leiðinni heim eftir langa dvöl fjarri sinni heimabyggð og nú stóð hún á sömu krossgötum og hún stóð á fyrir margt löngu síðan er hún kvaddi fjöllin sín og fólkið fyrir fullt of fast. Ennþá bar krossinn með sér þá kveðju að góður guð verndaði þá sem þyrftu að fara veginn og henni varð hugsað til þess dags er hún las áletrunina á krossinum á jólunum fyrir 20 árum síðan. Hví hafði þessi sami guð ekki gætt að velferð hennar og leitt hana framhjá hvers kyns fári á leið hennar um lífsins veg? Þessari spurningu fékk hún aldrei svar við enda verður oft fátt um svör þegar svo stórt er spurt. Hún hafði svosem líka valið sér sína leið án afskipta hans og ráðlegginga og látið það gott heita.


Enn stóð hún við krossinn og sá fjallið í fjarlægð sem hún hafði leikið sér við sem barn. Það hallaði undir flatt og nikkaði til hennar og bauð hana velkoma og bólin brostu sínu blíðasta er þau sáu hver stóð hikandi álengdar. Hún varð hugsi eitt andartak og velti fyrir sér hvort hún ætti að snúa við og segja endanlega skilið við þorpið sem fóstraði hana í æsku en ákvað að halda áfram og taka því sem fyrir höndum bar. Hún ræsti því litla bílinn og ók áleiðis í áttina að hreiðrinu sem hún flaug úr alltof snemma.

 

Hún varð að stoppa er hún sá víkina blasa við í öllu sínu veldi og henni vöknaði um augun þegar hún sá jólaljósin varpa bjarma yfir byggðina. Jólastjarnan blikaði á himninum beint upp af heiðinni þar sem hún fór svo oft í berjamó með Bjarna bróður sínum og hugurinn reikaði til löngu liðna tíma. Henni fannst hún heyra hlátrasköll þeirra systkinanna óma um fjallasali og berjalautirnar bíða þess að fá að gefa þessa ávexti jarðarinnar í koppa og kytrur svo mamma þeirra gæti gert góðgæti úr afrakstrinum.

 

Hún valdi að stoppa við vitann sem lýst hafði sjófarendum á hafi úti og vísað þeim leiðina í örugga höfn. Hún hefði gjarnan viljað að þessi sami viti hefði vísað henni til lands hér forðum er hún hvarf á braut út í miskunnarlaust lífið. Hún leit yfir víkina og sá hvar brimið lék sér við sandinn og fyrir hugskotsjónum sá hún systkinin hlaupa undan öldunni og minningin bar hlátur þeirra með vindinum milli fjöru og fjalla. Hún og Bjarni höfðu svo oft farið inn á sandinn til að láta báruna elta sig uppi og aldan hafði kysst tær þeirra og sandurinn farið svo mjúkum höndum um hörundið. Minningin var svo ljúf en í senn svo sár því sjórinn hafði tekið allt og ekkert gefið í staðinn.

 

Þau hefðu ekki átt að fara í fjöruna þennan örlagaríka dag um jólin, þau hefðu átt að vera heima hjá foreldrum sínum og hlusta eftir heilræðum þeirra. Víkin var ísilögð, napur vindurinn blés úr norðri og aldan gekk ákveðin upp á sandinn og reyndi að tæla þau til sín eftir fremsta megni. Ísjakarnir dönsuðu við fjöruborðið og buðu systkinunum upp í vals og þau voru til í dansinn þennan dag enda jól og bæði í hátíðarskapi. Þetta var áskorun sem þau gátu ekki staðist og þau óðu út í ískalda hvítfryssandi ölduna og freistuðu þessa að ná taki á jaka.


Ekki vissi hún hvað guð var að gera á þessari stundu þegar sandbotninn gaf sig og Bjarni fór á kaf og hvarf sjónum. Drottinn fylgdist þó grannt með atburðarrásinni ofan af hólnum en þar í kirkjunni átti hann samastað og hafði því útsýni yfir allt djúpið. Hún átti erfitt með að fyrirgefa honum að hafa ekki gripið inn í þennan ógnaratburð og leitt Bjarna að landi og aftur upp á sandinn. Hún vissi það núna að honum beið hlutverk á nýjum stað þó hún hefði aldrei sætt sig við brotthvarf hans þrátt fyrir margra ára þrátt og þref við þann sem bjó í kirkjunni á hólnum.

 

Hún fór upp í bílinn og ók í áttina að bænum. Hún reyndi að leiða hugann frá þessum degi þegar líf hennar breyttist í einum vettvangi og tók nýja stefnu. Hún hafði ekki getað hugsað sér að horfast í augu við foreldra sína og fólkið í bænum því henni fannst hún bera ábyrgð á því að bróðir hennar hvarf og kom aldrei aftur. Hún hafði hlaupið sandinn rennblaut áleiðis inn í nýja framtíð þennan örlagaríka dag með sáran verk í hjartastað sem fylgdi henni líkt og skugginn. Hugurinn var þó alltaf heima sama hvað sem á í lífi hennar gekk og hjartað sló í takt við andardrátt þorpsins sem hún yfirgaf.


Núna var hún komin heim á ný og þegar hún leit bæinn sinn fann hún til léttis og það var eins og verkurinn í hjartanu dvínaði. Hún hafði þráð þennan dag frá því að Bjarni barðist við ölduna og varð að láta í minni pokann fyrir ógnarkrafti ægis. Það kom henni á óvart hvað bærinn bauð hana velkomna með mikilli hlýju og þorpið virtist varla getað leynt ánægju sinni með þessa heimsókn hennar. Kirkjugarðurinn blasti við er hún renndi í bæinn og krossarnir í garðinum lýstu upp grundirnar og hún ákvað að staldra þar við og sjá hvort hún fyndi legstað föður síns. Hún kom ekki til að fylgja honum síðustu sporin því þegar hann kvaddi bjó hún í tilveru sem linaði verkinn í hjartanu. Tilveru sem tilheyrði hörðum heimi sem fékk hana til að gleyma sorginni um stund og líða ögn betur eftir hvern skammt.

 

Hún stöðvaði bílinn við kirkjugarðinn og staldraði við um stund og dáðist að ljósunum á leiðunum. Fólk var að huga að horfnum ástvinum sínum og setja kerti á leiðin enda jólin að koma. Allt var snjóhvítt í kirkjugarðinum og snjórinn var eins og silkiábreiða sem lögð hafði verið yfir landið og jólastjarnan á heiðinni vísaði veginn að legstað föður hennar í garðinum. Hún féll á kné og grét saknaðartárum við skinið frá kertinu á leiðinu og hún sá föður sinn í fjarska í skugganum af fjallinu svo brosmildan og fagran. Hún heyrði hann segja að nú yrði allt í lagi fyrst hún væri komin heim.


Hún þerraði tárin og stóð upp. Fólkinu í garðinum þótti hún kunnugleg og einhverjir nikkuðu kolli til hennar og buðu hana velkomna aftur heim. Henni þótti gott að vita að hún væri velkomin því hún hafði hvergi verið velkomin í þeim harða heimi sem hún hafði lifað í undanfarin 20 ár. Þessar óskir kirkjugarðsgesta juku henni þrótt og þor og nú var hún tilbúin að hitta móður sína sem hafði séð á eftir börnum sínum á jólunum og bar þann mesta harm sem nokkur móðir getur borið.


Móðir hennar stóð á tröppunum við húsið á kambinum og beið. Hún vissi að vitringarnir myndu vísa telpunni hennar veginn heim einn daginn og nú skein stjarnan svo óvenjuskært við heiðina og því hafði hún á tilfinningunni að týnda dóttirin kæmi heim þessi jól. Hún var búin að útbúa bláberjagrautinn úr berjunum sem spruttu á heiðinni líkt og hver einustu jól og hlýr móðurfaðmurinn beið útréttur eftir barninu sínu.

 

Þegar bíllinn stöðvaðist við húsið og þær hittust og féllust í faðma leit sá sem átti samastað í kirkjunni á hólnum með velþóknun á þessi börn sín og brosti. Ekkert ljós skein eins skært og ljósið sem baðaði litla húsið á kambinum þessi jól og engin týra logaði eins glatt og ljósið innra með mæðgunum sem hittust eftir svo langan aðskilnað. Jólastjarnan blikaði við heiðina og sveipaði bæinn hátíðarljóma og frelsarinn dásamaði þessi málalok. Sári verkurinn fyrir brjóstinu var horfinn og framtíðin beið björt í litla þorpinu fyrir vestan.

 

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.