Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Menning og mannlíf | 22.12.2015 13:30:41 |
Guðfinna hættir

Guðfinna Magnúsdóttir aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri leikskólans Glaðheima lætur af störfum um næstu áramót. Starfsmenn leikskólans gerðu sér glaðan dag eftir vinnu í gær þar sem spilað var bingó. Í kaffihléi tók Ragnheiður I Ragnarsdóttir leikskólastjóri til máls og þakkaði Guðfinnu vel unnin störf og afhenti henni kveðjugjöf frá starfsmönnum ásamt því að Elías Jónatansson bæjarstjóri þakkaði Guðfinnu fyrir gott starf í þágu barna í bænum.

Í tilefni af þessum tímamótum settist Guðfinna niður með pennan og rifjaði upp farinn veg í sínu starfi. Við gefum henni orðið:

 

Bolungarvík 17. desember 2015

 

Nú er ég að hætta.

Haustið 1979 hóf ég störf við leikskólann í Bolungarvík sem alltaf var kallaður Róló og var til húsa þar sem nú er Tónlistaskóli Bolungarvíkur. Leikskólastjóri var Selma Friðriksdóttir og ég var eingöngu að vinna eftir hádegi því þá var leikskólinn tvísetinn eins og grunnskólinn var einnig á þeim árum.

 

Síðan þetta haust hef ég meira og minna unnið við uppeldisstörf utan heimilis í leik- og grunnskóla með nokkrum hléum þar sem ég vann í frystihúsinu hjá E.G.

 

Leikskólinn flutti í nýbyggingu við Hlíðarstræti árið 1984 og hlaut nafnið Glaðheimar. Árið 1991 var boðið upp á fjarnám við Fósturskóla Ísland og var ég svo heppin að komast í þann hóp og lauk leikskólakennaranámi árið 1995.

 

Haustið 1998 hóf ég störf í Grunnskóla Bolungarvíkur og kenndi þar 1. bekk í átta ár. Á þeim tíma hóf ég fjarnám við Kennaraháskóla Íslands og lauk grunnskólakennaraprófi árið 2006.

 

Eftir það hef ég unnið við Leikskólann Glaðheima og núna síðustu ár sem leikskólastjóri og sérkennslustjóri.

 

Nú er ég orðin 67 ára og kominn tími til að hægja á. Ég hef því ákveðið að hætta að vinna launavinnu nú um áramót. Ég vil þakka samstarfsfólki, börnum og foreldrum fyrir gott samstarf öll þessi ár. Þetta hafa verið góð ár sem ég hef átt hér í bæ en ég hef búið hér í 40 ár og yfirleitt liðið mjög vel og kynnst afbragðsfólki. Það er því með töluverðri eftirsjá sem ég dreg mig í hlé en það er líka gott að hætta meðan heilsan er í lagi og vonandi á ég mörg góð ár eftir í ellinni.

 

Takk fyrir mig.

 

Guðfinna Magnúsdóttir

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.