Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Menning og mannlíf | 6.11.2014 22:38:49 |
Pálmi Gestsson í nýrri bók um hreindýraskyttur

Bókin "Hreindýraskyttur", eftir Guðna Einarsson, blaðamann, er komin út. Þar segja tíu veiðimenn, karlar og konur, frá hreindýraveiðum á Íslandi og Grænlandi.

 

Bolvíkingurinn Pálmi Gestsson leikari er einn viðmælenda og segir skemmtilega frá hreindýraveiðum sínum eins og honum einum er lagið. Aðrir viðmælendur eru Axel Kristjánsson hrl., Gunnar A. Guttormsson bóndi, Guttormur Sigbjarnarson jarðfræðingur, Sigrún Aðalsteinsdóttir fyrrverandi húsvörður, Þorgils Gunnlaugsson bóndi, Aðalsteinn Aðalsteinsson bóndi, María B. Gunnarsdóttir rannsóknamaður, Sæunn Marinósdóttir viðskiptafræðingur og Sigurður Aðalsteinsson sem er leiðsögumaður hreindýraveiðimanna líkt og þeir Aðalsteinn og Gunnar.

 

Í hópi viðmælenda eru veiðimenn sem hófu hreindýraveiðar fyrir miðja 20. öld þegar hreindýrastofninn var að rétta úr kútnum eftir langvarandi lægð. Einnig er rætt við yngri veiðimenn sem hófu hreindýraveiðar á 21. öld og segja frá reynslu sinni. Sérstakur kafli er um sögu hreindýraveiða og fyrirkomulag þeirra allt frá því að öllum veiðileyfum var úthlutað til sveitarfélaga og þar að öll veiðileyfin voru seld sportveiðimönnum. Leiðsögumaður hreindýraveiðimanna gefur einnig góð ráð um undirbúning hreindýraveiða og útbúnað til þeirra. Bókin er prýdd landakortum og fjölda mynda. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

 

Hér fylgir kafli úr viðtalinu við Pálma Gestsson:

 

„Það blundaði alltaf í mér einhver veiðináttúra, kannski bara náttúruunnandi, sem ég hafði ekki sinnt,“ sagði Pálmi Gestsson þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði byrjað að veiða hreindýr. „Ég var á sjó í gamla daga og menn voru að veiða við bryggjuna í Bolungarvík. Ég fékk þó aldrei áhuga á stangaveiði. En það blundaði alltaf í mér áhugi á skotveiði og fuglaveiði. Ég kom mér upp skotveiðibúnaði og fór að veiða fugla, aðallega gæsir og rjúpur. Svo þróaðist þetta út í hreindýraveiðar.“

 

Náttúruunnandinn, sem blundaði í Pálma á yngri árum, braust úr viðjum og fór að blómstra eftir að Pálmi komst á miðjan aldur. Það að vera úti í náttúrunni og njóta hennar í sem flestum myndum er Pálma mjög dýrmætt. Hann fór til dæmis að stunda fjallgöngur og tók þátt í verkefninu Eitt fjall á viku á vegum Ferðafélags Íslands en í því er gengið á 52 fjöll á einu ári.

 

„Mér datt það aldrei í hug, meðan ég var að alast upp í Bolungarvík, að fara erindisleysu á fjöll. Mér fannst það fáránlegt! En ég hef aldrei verið í betra formi en nú eftir að vera búinn að ganga um fjöll og firnindi. Kannski er veiðieðlið eitthvað sem maður býr að úr rótunum. Ég er uppalinn við náttúruöflin í Bolungarvík, sjóinn, fjöllin og veðrið. Þetta fór í taugarnar á mér þegar ég var unglingur. Svo fór ég suður í skóla og hef búið þar lengi. Hvort sem manni líkar betur eða verr þá togar þetta allt mann til sín aftur. Ræturnar eru sterkar og trúlega þessi náttúra líka,“ sagði Pálmi. Hann hefur sannarlega hlýtt kalli heimahaganna og á nú glæsilega uppgert gamalt hús í Bolungarvík þar sem hann dvelur eins oft og hann getur.

 

Pálmi sagði rjúpnaveiðar vera með því skemmtilegasta sem hann hefur stundað, en hreindýraveiðarnar og allt sem þeim fylgir og af þeim leiðir er ekki langt þar að baki. Pálmi hefur alltaf gert út á hreindýraveiðar frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. „Ég hef svo gaman af að fara austur og að vera með körlunum. Vera úti í náttúrunni og vafra um óbyggðirnar í leit að hreindýrum. Svo finnst mér hreindýrakjöt einhver besti matur sem ég hef nokkurn tíma fengið. Ég get ekki hugsað mér að eiga ekki hreindýrakjöt.“


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.