Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 6.8.2008 | Kristján Jónsson
Aðhlátursefni á auglýsingastofu

„Kristján Jónsson heiti ég og er Bolvíkingur.“ Mér þykir sjálfsagt og eðlilegt að kynna mig með þessum hætti í síma, ef ég er að hringja í einhvern sem ég kannast við en hef kannski verið í engu eða litlu sambandi við í talsverðan tíma. Ég hef hins vegar hrasað um að mörgum þykir þetta all sérstakt.

 

Sérstaklega varð ég var við þetta fyrir rúmi ári síðan þegar ég tók að mér tímabundið verkefni á auglýsingastofu í 101 Reykjavík. Nokkrir apakettir að sunnan unnu með mér að verkefninu. Einu sinni sem oftar tek ég upp símann og hringdi þá í hinn hávaxna prentara/ljósmyndara/kajakræðara/körfuboltafrömuð, Dóra Sveinbjörns, hjá BB. Kynnti ég mig með fyrrnefndum hætti. Ætlaði þá allt vitlaust að verða á borðunum í kringum mig þar sem sunnanmenn hlógu eins og þeir væru að horfa á Viðeyjarskaupið í fyrsta skipti. Að símtalinu loknu áttaði ég mig á því að það var umrædd kynning sem þeir voru að hlæja að. Ég velti þessu aðeins fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að Reykvíkingar hafa ekki svo mikið til þess að kenna sig við. Einhver hefði nú haldið að það væri ekkert sérstaklega fátæklegt að kenna sig við höfuðstaðinn.

 

En þegar Reykvíkingar fara á annað borð að tala um uppruna sinn þá rembast þeir gjarnan við að tengja sig annað. Dæmi: ,,Ég er nú alin(n) upp í austurbænum í Reykjavík.....“ að þessu loknu kemur gjarnan: ,,.....en ég er nú ættaður/ættuð úr Ísafjarðardjúpi/Breiðafirðinum/Skagafirðinum/Hornafirði/Vestmannaeyjum.“ Það virðast vera álíka miklar líkur á því að hitta einhvern sem er Reykvíkingur í marga ættliði eins og að hitta þann sem fann upp slátrið. Ég get svo sem skilið þessa tilhneigingu. Það hlýtur að vera fremur dapurlegt hlutskipti að hafa ekkert sérstakt til þess að kenna sig við. Eða vera ekki stoltur af því úr hvaða farvegi maður er sprottinn sem er auðvitað mun verra og vonandi sjaldgæft.


Knús knús
Kristján Jónsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.