Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 3.1.2008 | Gylfi Gunnarsson
Dagur tvö

Við innritun áðan fékk ég í hendur bréf frá Flugmálastjórn. Í bréfi þessu er fjallað um flug (018) mitt í gær og hlaut ég sérstakt lof Flugmálayfirvalda fyrir vasklega framgöngu og fyrir að sýna tæra snilld í meðferð vélar sem ég hafði aldrei flogið áður og gat varla talist flughæf, en þó var takmörkuð hrifning með flug mitt yfir ákveðið hús á Kjalarnesinu og sagt að það hefði verið rýmt og allir sem þar voru vistaðir, ásamt ráðgjöfum, hefði tvístrast um allar jarðir, sumir hefðu snúið aftur sjálfviljugir aðrir hefðu verið hirtir upp á hinum ýmsu skemmtistöðum Borgarinnar ofurölvi eða í annarri vímu. Enn er verið að leita tveggja flugvirkja og virðist eins og jörðun hafi gleypt þá. Ég verð nú bara að segja það, að mér fannst þetta nú ekkert tiltökumál í innanlandsflugi minnugur þess þegar flugstjóri millilandavélar athugaði laxeldi sitt þegar Stella var í orlofi.

Það voru flest allir frá fluginu í gær mættir um borð í vélina en einhverjir höfðu samt bæst við. Smá töf varð á flugtaki vegna þess að það kom í ljós að það var einum farþega of mikið. Þessu komust flugfreyjur og flugþjónar að, í sameiningu, eftir að vera búnir að telja farþegana a.m.k. 6 sinnum. Við þessu varð að bregðast mjög skjótt, og taka málið fyrir af fullri hörku, vegna þess að það er algerlega óviðunandi að Vestfirðingum fjölgi með óeðlilegum hætti. Rétt er að geta þess að bæði flugmenn og flugfreyja voru þau sömu og voru með í för í gær, þau voru öll fremur framlág og læddist flugfreyjan með gólfi. Það var ekki til auka gleði þeirra eftir vist í gæsluvarðhaldi, þegar þau fréttu af þessum litla fögnuði okkar í gærkvöldi.

Ferðin vestur gekk að mestu áfallalaust, ef frá er talið að konugreyið sem lenti í "slysinu" á snyrtingunni í gær þurfti að fara þangað aftur, og nálgaðist hún umrædda snyrtingu nú mjög varlega og var eins og hún vissi ekki í hvorn fótinn hún ætti að setjast. Þetta gekk allt vel hjá henni þar til hún sturtaði, en þá var eins og fjandinn yrði laus. Í stað undirþrýstings í gær, var nú yfirþrýstingur í vélinni, sem er að sjálfsögðu eðlilegt í vélum með jafnþrýstibúnaði, Það skipti engum togum að allt sem í snyrtiklefanum var, sogaðist niður um niðurfallið og konan var engin undantekning, en sem betur fer, var hún nægilega holdamikil til þess að stöðva “útstreymið”. Hún festist að vísu við skálina og er enn, síðast þegar fréttist, unnið að því að fá hana lausa, í samráði við sérfræðinga hjá Landhelgisgæslunni. Þessi “sturta” konunnar olli því miður alvarlegu hættuástandi vegna þess að við þrýstingsfall í vélinni minnkaði súrefnið það mikið að allar grímur féllu sjálfvirkt niður, eins og ráð er fyrir gert, í neyðartilfellum sem þessum. Farþegar tóku þessu öllu með stakasta jafnaðargeði og settu grímurnar upp, en fljótlaga fór að bera á ýmsum óvæntum hlátursrokum sem stigmagnaðist þegar líða tók á flugið. Það var talað um það, eftirá, að sumir, sem ekki höfðu hlegið árum saman hafi ekki getað stillt sig og maður einn hafi brosað út í annað ef ekki bæði þótt það hljóti að hafa verið mjög sársaukafullt fyrir hann, nýkominn úr kjálkaaðgerð og með höfuðið í gifsi. Þetta er í fyrsta og eina skiptið sem ég hef séð fullorðið fólk "skála" með súrefnisgrímum. Flugmenn vélarinnar, sem greinilega voru mjög argir af einhverjum ástæðum hundskömmuðu farþegana fyrir ólæti og sögðu þeim að ekkert yrði af lendingu á Ísafirði vegna veðurs þar, en í þess stað yrði lent á Þingeyri, en þar er, eins og öllum er kunnugt um, enginn flugvöllur lengur, vegna þess að bóndinn á næsta bæ var búinn að taka völlinn eignarnámi og planaði að setja upp kartöflugarð einn mikinn og knésetja þar með alla Þykkvabæjarbændur á einu bretti. Það voru að vísu byrjunarörðugleikar hjá honum á þessari framkvæmt vegna vatnsskorts. Nú lendingin á Þingeyrarfyrrverandiflugvelli gekk bara vel ef miðað er við Rally-cross keppni en þegar vélin stöðvaðist, gersamlega trylltust flugmennirnir og ég heyrði þá rífast í talstöðinni við flugmálastjóra um að viðhalda betur korta- og flugbókum stofnunarinnar. Einnig heyrði ég á tal þeirra innbyrðis, um að "einhverjir andskotans flugvirkjar í bænum sem áttu að vera í meðferð, hefðu víxlað tengingum á hláturgas- og súrefniskútunum", en hláturgasið væri þeim einum ætlað, en ekki, farþegunum.

Næsta sem gerðist var það að bóndinn kom á sinni Massy-Ferguson dráttarvél, skælbrosandi, þannig að sást skína í báðar kaffibrenndar tennurnar í honum og bauðst til að kippa vélinni niður á veg, "það væri nú það minnsta sem hann gæti gert fyrir okkur" sem hefðum grafið þennan fína áveituskurð fyrir hann. Ég ætla ekki að gera minnstu tilraun til að lýsa orðbragði flugmannanna en vélin var dregin og við lögðum af stað gangandi áleiðis til Þingeyrar. Þegar þangað kom tóku Þingeyringar á móti okkur með eggja- og tómatkasti ásamt ýmsu öðru góðgæti sem var mjög vel þegið, við vorum orðin glorhungruð á þessu ferðalagi.

Við fengum síðan far með Gámaþjónustu Vestfjarða til Ísafjarðar og ég gekk síðan til Bolungarvíkur, en þar beið mín múgur og margmenni með blóm og blöðrur. Ég var að frétta rétt áðan, að ég yrði gerður að heiðursborgara Bolungarvíkur og dagurinn í dag yrði eftirleiðis almennur frídagur hér, ár hvert.

 

Gylfi Gunnarsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.