Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 10.12.2007 | Gylfi Gunnarsson
Ferðin heim: Dagur eitt

Þetta er skrifað í Flugleiðavél F-50 Flugnúmer: 018, sæti 4A. Frá sjónarhóli spennufíkils, sem ég er ekki, er þessi ferð búin að vera ósköp tilbreytingasnauð, ef frá eru talin nokkur minniháttar atvik, sem ég skal greina frá, fyrst þú endilega vilt.

Ferðin byrjaði á Reykjavíkurflugvelli, sem ætti ekki að koma á óvart, í ausandi rigningu og roki. Flugtakið tókst !

Á leiðinni var svona miðlungs ókyrrð þetta svona 7.6 á Ricter kvarða. Þegar komið var í Ísafjarðardjúpið fór ókyrrðin að aukast pínulítið þannig að, áhöfnin tók að ókyrrast verulega og upphófust þá nokkur læti í vélinni bæði vegna ótta áhafnarinnar og annarra orsaka.

Þetta byrjaði allt með því að kona nokkur þurfti á salernið og ætlaði að sturta "niður" að loknu sínu venjubundna "niðurfalli" en ekki vildi betur til en svo, vegna undirþrýstings inni í vélinni, að hún sturtaði öllu sem safnast hafði í viðkomandi skál "upp" í óæðri endann á sér. Þegar konugreyið komst við illan leik og illa lyktandi fram í farþegarýmið hitti hún flugfreyjuna sem nú var á barmi taugaáfalls og þegar hún sá konuna missti hún legvatnið, sennilega vegna samkenndar (þú veist hvernig konur eru), og öskraði nú sem aldrei fyrr.

Það greip um sig nokkur ótti meðal annarra farþega við þetta og má nefna að gömul kona sem misst hafði út úr sér tennurnar í einni dýfunni reyndi að fanga þær en greip, í stað tannanna, konuna í næsta sæti fyrir framan hana, kverkataki þannig að það upphófust smá leðjuslagur þar sem kaffi og innihald ælupoka var aðallega notað.

Af tönnunum er það að segja að þær flugu fram eftir vélinni og bitu sig loks fasta í háls manns sem sat í fremstu sætaröð. Honum brá að vonum við þetta og greip snöggt um hálsinn en rak um leið olbogann í konu sína sem sat við hlið hans og steinrotaði hana. Við þetta sló nokkuð á æsing annarra farþega nema flugfreyjunnar sem nú var orðin sturluð og kallaði á mömmu og heilögu ljósmóðir. Flugmenn vélarinnar sáu sér nú leik á borði og réðust báðir á flugfreyjuna sem veitti enga mótspyrnu, en umlaði einhver óskiljanleg orð og það var eins og það færðist einhver óskiljanleg ró yfir hana og engu líkara en hún væri komin í einhverja sæluvímu.

Ég sé að við þetta ástand er ekki hægt að una, þannig að ég verð að hætta þessum skrifum, í bili, og drífa mig fram í flugstjórnarklefann.

Þetta er skrifað á Reykjavíkurflugvelli nánar tiltekið á kaffiteríunni.

Ég tók við stjórn vélarinnar, sem var lítið mál fyrir mig, alvanan flugmanninn. Nú var skyggnið orðið mjög lélegt í Djúpinu og í Skutulsfirði og varð ég að sveima í Djúpinu í von um að það birti til, það gerðist ekki, og varð ég því að snúa við og fljúga áleiðis suður aftur.

Við þessa ákvörðun mína upphófust töluverð slagsmál í vélinni aðallega milli flugmannanna og varð ég að taka til þess bragðs að taka nokkrar lúppur og kollhnísa til að minnka meðvitund farþega og áhafnar.

Ég stóðst síðan ekki mátið þegar ég flaug yfir Kjalarnesið, um hádegisbilið, að ég tók smá kollsteypu niður að meðferðarheimilinu Vík, til þess að sjá hvað væri í matinn á þeim bænum. Ekki get ég nú sagt að ég hafi verið hrifinn af matnum sem þar var á borðum og er annað uppi á teningnum en þegar ég var þar við stjórn.

Lendingin í Reykjavík heppnaðist og sit ég hér (kl.13:20) og bíð þess að skyggnið batni fyrir vestan en það á að athuga með flug eftir klukkutíma. Ég hef verið beðin um að fljúga vestur aftur vegna þess að áhöfnin var flutt nauðug í burtu strax eftir lendingu hér.

Þetta var semsagt tíðindalítið flug þegar tekið er mið af því að þetta flug var til Ísafjarðar. En blessuð börnin sem komu að mestu óslösuð úr ferðinni höfðu bestu skemmtun af henni og vilja ólm fara aftur með þessari sömu vél og engri annarri.

 

Gylfi Gunnarsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.