Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Vísnahorn Víkara | 27.1.2010 | Ragna
Bæjarbragur fluttur á þorrablóti árið 2007

Nú skal birtur bæjarbragur sem fluttur var á þorrablóti í Bolungarvík árið 2007. Í bragnum er stiklað á stóru í mannlífi bæjarins á þeim tíma. Enn og aftur óskar Víkari eftir bolvískum þorravísum til að setja í safnið. Lagið er Hagavagninn og braginn samdi Ragna Jóhanna Magnúsdóttir.

Nú ætlum hér að segja ykkur sögu
og syngja lítinn bæjarbrag.
Sem samansettur er í litla bögu
og fluttur skal nú hér í dag.
Nú knálega skal kveða hér um bæjarbúa,
og kynjakvistir skerf sinn fá.
Hér merkilegar, meiriháttar sögur fljúga
sem bæinn setja svip sinn á.

Það siður er á hverju byggðu bóli
að eiga eina mektarmær
Sem forseti á háum valdastóli
Sossa loksins sitja fær.
Að ná hér hreinum meirihluta staðföst keppti,
því ríkjum vildi ráða hér.
Og skólastjórastöðuna hún loksins hreppti,
þar stolt nú stýrir barnaher.

Hér bæjarstjóra varð þá strax að ráða
þá þóttu góð ráð vera dýr.
Þroskaþjálfa hvetja varð til dáða
því leitað var að fræknum fýr
Hann varð að vera skemmtilegur, snjall og sætur
það borgaði sig þúsundfalt.
Á bassann geta spilað daga jafnt sem nætur
tónelskur og til í allt.

Í Hólshreppi fór stórgrýtið að skríða
niður hlíðar allt um kring.
Svo hugljúft er á Grjóthrunið að hlýða
er bergmálar um fjallahring.
Af fingrum fram þeir léku hér í sjónvarpsþætti
um Óshlíðina napurt níð.
Skondinn smell sem eflaust margan manninn kætti
Lýður söng í erg og gríð.


Hér lífið oft er enginn hægðarleikur
ef læknishjónin eru á vakt.
Þá þýðir ekki neitt að vera veikur
ef hljómsveitin skal slá í takt.
Þau hafa engan tíma til að svara síma
og sjúklingurinn fer í bið.
Þeim verðum þá að gefa nokkuð góðan tíma
og treysta bara á almættið.

Í Einarshúsi gleði er og glaumur
og saman gleðst þar sérhver sál.
Og einatt liggur þangað stríður straumur
þótt sumir glingri létt við skál.
Nú efri hæð í Kjallaranum senn er búin
því Ragna á svo góðan smið.
Og upp í Péturskaffi fýrug fetar frúin
Nú leiðin liggur upp á við.

Hann Einar Kristinn skotveiði vill stunda,
úr augum veiðigleðin skín,
og skemmtilegast er að veiða lunda
en sagan hér er ekkert grín,
Því sjávarútvegsráðherrann þá stóð í ströngu
hann þóttist hafa hildi háð.
En veiðikortið hans var ónýtt fyrir löngu
samt skaut hann eina væna bráð.

Svo gerðist það á vetrardegi löngum
að Stúkuhúsið hvarf á braut.
Og ennþá bíða allir eftir göngum
nú leysa þarf þá vega þraut.
En nú við skulum skemmta okkur hérna saman
og gleyma dagsins amstri um sinn.
Með bros á vör á þorrablóti höfum gaman
og göngum inn í gleðskapinn.

Þorrablótið 2007
Höf: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.