Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Vísnahorn Víkara | 12.1.2009 |
Minningar úr Bolungarvík

Jóna Sigurðardóttir er Bolvíkingum af góðu kunn enda hefur hún ort um lífið í Víkinni og beitt bragfræðum af mikilli list. Minningarnar sem hér birtast voru sungnar á þorrablóti og lagið er " Húrra nú ætti að vera ball".

 

Rifja ég ætla upp æskuár

aldurinn er orðinn nokkuð hár.

Allt er nú síðan orðið breytt

og erfiða þurfum við ekki neitt

 

Viðlag:

Já, þá var nú aldeilis önnur öldin

allir að starfa, þá höfðum nóg.

Menn gerðu sér annað til gamans á kvöldin

en glápa á sjónvarp og vídeó.

 

Í húsunum var ekkert vatn að fá

við urðum að þvo út í læknum þá.

Ekkert þá komið var orkubú

öðruvísi var tíðin sú.

 

Viðlag:

 

Engin fjarvarmaveita var

víst þess söknuðum ekki par.

Kynda við þurftum með kolum og mó

í kuldum reyndist það varla nóg.

 

Viðlag:

 

Kamínu einni var eldað á

og kokkhúsið höfðum við saman þá.

Vani var ekki að vera með pex,

þótt værum með krakkana átta og sex

 

Viðlag:

 

Í búðunum alltaf var afgreitt þá

og allt var á sama stað hægt að fá.

Koppa og kyrnur og hverskyns tól

hveiti, olíu og sirs í kjól.

 

Viðlag:

 

Á reitunum vaskað í vosbúð var

og víst okkur kalt var á höndum þar.

Að brjóta klaka og byrja svo

bráðsnemma á morgnana fisk að þvo.

 

Viðlag:

 

Öðruvísi hér áður var

ei voru þá neinar tryggingar.

Fólk var að vinna þó væri ei hresst

Hann var ekki fæddur hann Svavar Gests.

 

Viðlag:

 

Á grímuböllunum gaman var

Gísli hann leiddi oft marsinn þar.

Um morgunverkin ei var neitt pes

þó væri alltaf dansað til klukkan sex.

 

Viðlag:

 

Færðin oft erfið á vetrum var

þá voru engir bílar að fá með far.

Því styttum við pilsin og stikuðum heim

snjóinn var erfitt að vaða í þeim.

 

Viðlag:

 

Á Ögurböllum var alltaf fjör

ótt þarna slógu þá hjörtun ör

venjulega þá voru þeir

viltastir Hannes og Sigurgeir.

 

Viðlag:

 

Á fjörugum böllum var fólk oft þreytt

og fór til að hvíla sig svangt og heitt.

Rabbaragraut með rjóma út á

reyndist og gott vera í svanginn að fá.

 

Viðlag:

 

Í Stúkuhúsi var dansað dátt

dæmalaust var þetta fólk nú kátt.

Fimir í dansinum Fótungar

af fjöldanum öllum þeir báru þar.

 

Viðlag:

 

Rifjað upp hefi ég æskuár

þótt aldurinn sé orðinn svona hár.

Vonum að ballið hér byrji skjótt

og bráðhress öll dönsum við fram á nótt.

 

Viðlag:

Já, þá var nú aldeilis önnur öldin
allir að starfa, þá höfðum nóg.
Menn gerðu sér annað til gamans á kvöldin
en glápa á sjónvarp og vídeó.

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.