Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 20.1.2020 13:55:47 |
Bjarnabúð hundrað ára

Þann 20. janúar 1920 hófst verslunarrekstur í húsinu að Hafnargötu 81 í Bolungarvík sem frá árinu 1927 hefur kallast Verzlun Bjarna Eiríkssonar eða Bjarnabúð.

 

Á þessum hundrað árum hefur eitt hlutafélag og þrír kaupmenn staðið fyrir verslunarrekstri í húsinu.

 

Hinar sameinuðu íslensku verslanir hf. 1920-1926
Bjarni Eiríksson 1927-1958
Benedikt Bjarnason 1958-1996
Stefanía Birgisdóttir 1996-

 

Hinar sameinuðu íslensku verslanir samanstóðu af Gránufélaginu, Tulinius og Á. Ásgeirsons og ráku verslanir á Austurlandi, Norðurlandi og við Ísafjarðardjúp. Næst á eftir Sambandinu var þetta hlutafélag stærsta verslunarfyrirtæki á Íslandi en varð gjaldþrota árið 1926. 

 

Hinar sameinuðu íslensku verslanir reistu húsið við Hafnargötu 81 árið 1919. Karlmenn í Bolungarvík voru flestir á síld þegar byrjað var á húsinu um haustið og það voru því konur og ungt fólk sem grófu fyrir grunni húsins en timburverk þess kom tilsniðið frá Danmörku í ágúst 1919.

 

Bjarni Eiríksson var fenginn frá Ásgeirsverslun á Ísafirði til að reka verslun félagsins í Bolungarvík og tók síðan upp verslunarrekstur þar eftir gjaldþrot þess en verslun hans nefndist Verzlun Bjarna Eiríkssonar og heitir það enn í dag. Benedikt Bjarnason tók við rekstrinum af föður sínum og rak verslunina þar til Stefanía Birgisdóttir tók við af Benedikt.

 

Í Bjarnabúð var alltaf afgreitt yfir borðið en árið 1963 var búðinni breytt í kjörbúð og var hún fyrst slíkra versluna utan Reykjavíkur.

 

Í Bjarnabúð má finna allt milli himins og jarðar m.a. vefnaðavöru, bækur, gjafavöru, ungbarnafatnað, föt á fullorðna og búðin er einnig matvöruverslun.

 

Bolungarvíkurkaupstaður óskar Stefaníu Birgisdóttur og manni hennar Olgeiri Hávarðarsyni til hamingju með þennan merka áfanga í verslunarsögu Bolungarvíkur og Bolvíkingum öllum til hamingju með afmælið!


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.