Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 4.4.2018 09:32:18 |
Verkefnisstyrkir úr Uppbyggingarsjóði

Hér má sjá yfirlit yfir verkefni sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða á dögunum og stutta lýsingu á hverju verkefni. Þetta eru eingöngu verkefnisstyrkir sem tengjast með einhverjum hætti Bolungarvík. 

 

Stofn- og rekstrarstyrkir eru ekki með í þessari samantekt, en slíkir styrkir eru oftast veittir til menningarstofnana sem eru með samfellda starfsemi.

 

Menningarverkefni

 

Gæða og innviðaþróun í Ósvör
Menningararfur/Safnamál - Sjóminjasafnið Ósvör, Bolungarvík
Bæta þarf við upplýsingum um hvern grip með litlum sýningarskiltum með teikningum og upplýsingum um notkun gripsins á tveimur tungumálum. Auka þarf við innanhússlýsingu á safninu svo gestir sjái gripi betur. Betrumbæta þarf heimasíðu og upplýsingar þar ásamt því að gefa út ítarefnisbækling um gripi safnsins sem fólk getur nálgast. Safnið er opið frá júníbyrjun til septemberloka, en annars eftir samkomulagi.

 

Einars leikur Guðfinnssonar
Leiklist og aðrar sviðslistir – Kómedíuleikhúsið
Einars leikur Guðfinnssonar rekur sögu athafnamannsins sem breytti þorp í bæ með einstökum hætti og dugnaði. Hann er ekki nema 26 ára þegar hann sest að í Bolungarvík með tvær hendur tómar en nær að byggja upp eigið veldi sem á fáa sína líka. Hér er á ferð saga sem snertir við öllum, er bæði fræðandi og upplýsandi og þá ekki síst fyrir æskuna og gesti Bolungarvíkur sem geta hér fengið söguna beint í æð með göldrum leikhússins. Einars saga er gott dæmi um það að allt er hægt með viljanum. Frumsýnt 17. maí 2018.

 

Hrafnseyri frá landnámi til fullveldis Blönduð menningardagskrá - Náttúrustofa Vestfjarða
Viðburðadagskrá sem miðar af því að miðla sögu staðarins. Dagskráin verður flutt þann 17. júní en svo verða viðburðir settir upp allt sumarið. Dagskráin inniheldur m.a. leiksýningu um ævi Jóns Sigurðssonar, sögugöngur, fyrirlestra, barnadagskrá, barnauppgröft og miðlun rannsóknarniðurstaðna. Frumflutt verður nýtt tónverk eftir ísfirska tónskáldið Halldór Smárason.

 

Krummaskuð
Menningartengd ferðaþjónusta - Linda Dröfn Gunnarsdóttir
Menningar- og fræðslusetur með sérstöku krummaþema á Hóli í Bolungarvík. Markmiðið er að safna á einn stað sögum, kvæðum, munum og öðru sem tengist hrafninum - á Íslandi öllu en sérstaklega þó á Vestfjörðum. Með þessu er ætlunin að efla ferðaþjónustu í Bolungarvík. Lagt er upp með að kynna þá sérstöðu sem krumminn hefur í íslensku samfélagi og þar að auki setja fram ýmis konar fróðleik á nýstárlegan hátt. Þannig mun setrið vekja athygli, bæði fyrir efnistök og útlit. Í samkomulagi við Tækniþjónustu Bifreiða, hefur verið ákveðið að staðsetja setrið á Hóli II í Bolungarvík. Mun uppbygging svæðisins taka mið af því.

 

Náttúrugripasafnið á nýjum tug
Menningararfur/Safnamál - Náttúrugripasafn Bolungarvíkur
Náttúrugripasafn Bolungarvíkur á 20 ára afmæli í ár og er orðin mikil þörf á endurnýjun á uppsetningum í sýningarsalnum og upplýsingarmiðlun. Markmiðið er að leggja grunnvinnu í að nútímavæða sýningar og auka þar með upplýsingar um gripina en mikil þörf orðin á því í takt við nýja tíma. Breytingar á safninu undirbúnar og skipulagðar og fengin ráðgjafi um uppsetningu á sýningunum í takt við nýjustu tækni ásamt því lagt verði fram drög af hönnun á salnum og sýningunum. Að því loknu verður gerð áreiðanleg framkvæmdar- og kostnaðaráætlun.

 

Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni

 

Dropi - þróun nýrra afurða
Matvæli - True Westfjords ehf.
Markmiðið er að þróa nýjar vörur af Dropa með þorsklifrarolíu fyrirtækisins sem grunn. Mikil þörf á stækkun vörulínu fyrirtækisins til að komast inn í verslanir á erlendum mörkuðum. Fara þarf í skimun á markaði vegna fyrirhugaðra nýjunga. Leita þarf að samstarfsaðilum með vörur sem henta með Dropa. Þá þarf að leita að og velja bragðefni til prufuvinnslu. Tilraunaframleiðsla þarf að fara fram og í framhaldi bragð og lyktarprófanir. Skoða þarf geymsluþol vörunnar. Fara þarf í hönnun umbúða með hönnuðum og sérfræðingum í merkingu matvæla.

 

Framleiðsla á rækjumjöli til manneldis
Iðnaður - Kampi ehf.
Markmið verkefnisins er að gera hagræna og aðferðafræðilega rannsókn til að meta möguleika þess að vinna astaxanthin og/eða chitin úr rækjuskel sem fellur til hjá Rækjuvinnslu Kampa á Ísafirði.
Rækjuvinnslan Kampi starfrækir í dag mjölvinnslu í Bolungarvík, sem vinnur mjöl úr rækjuskel sem fellur til við framleiðslu á pillaðri rækju. Það er þekkt framleiðsluaðferð að vinna dýrari og virðisaukandi afurðir úr rækjuskel, eins og astaxanthin og / eða chitin. Verkefnið felst í því að rannsaka og meta hagkvæmni á vinnslu astaxanthins og chitins úr rækjuskel sem fellur til í rækjuvinnslu Kampa.

 

SVS strandveiðistangir
Iðnaður - Tækniþjónusta bifreiða ehf.
Ný tegund veiðibúnaðar sem gerður er að mestu úr áli. Búnaðurinn er viðbót við rafmagnsfæravindur og hentar öllum færabátum. Þessi búnaður, sem við köllum strandveiðistangir (SVS), framlengir færin í 170° radíus á bát og allt að 5 metra út fyrir lunningu báts. Þegar færarúlla dregur inn færið lyftist stöngin sjálfkrafa og færir krókana upp að hlið bátsins og í þá hæð sem sjómaður óskar.

 

Yfirlit yfir verkefni sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 2018


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.