Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 31.5.2017 11:43:09 | ruv.is
Lokun útibús sýslumanns eru svik við íbúa

Ríkisútvarpið greinir frá því að bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar mótmælir harðlega ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum um að loka útibúinu í Bolungarvík og færa starfsemina á sýslumannsskrifstofuna á Ísafirði og hætta þannig þjónustu við íbúa í Bolungarvík. Til að loka útibúinu þarf að breyta reglugerð og bæjarráð skorar á dómsmálaráherra að láta ekki að því verða. Í dag er síðasti afgreiðsludagur útibúsins.

 

Lokað í hagræðingarskyni

Í bréfi sýslumanns til dómsmálaráðherra segir að útibúinu sé lokað í hagræðingarskyni og óskar sýslumaður eftir því að reglugerð um umdæmi sýslumanna sé breytt svo loka megi útibúinu. Í reglugerðinni segir að í Bolungarvík sé útibú. Sýslumaður segir í bréfinu að með lokun útibúsins megi ná megi hagræðingu í mannahaldi og húsnæðiskostnaði án þess að þjónustan sé skert um of. Íbúar í Bolungarvík geti þá sótt þjónustu sýslumanns til Ísafjarðar, sem er 14 kílómetra leið um Bolungarvíkurgöng. Sýslumaður bendir á að vaxandi samgangur sé á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og að þrír af ellefu starfsmönnum sýslumannsskrifstofunnar á Ísafirði búi í Bolungarvík.  

 

Svik við íbúa

Bæjarráð telur breytingar á reglugerðinni vera svik við Bolungarvík og Vestfirði og enn eina aðförina að opinberri þjónustu við íbúa á svæðinu. Þegar embætti Sýslumanns á Vestfjörðum hafi verið stofnað árið 2014 og embætti Sýslumanns í Bolungarvík lagt niður hafi komið skýrt loforð innanríkisráðherra um að efla og styrkja embætti sýslumanna um land allt. Hins vegar hafi verið degið úr starfsemi, verkefni flutt á höfuðborgarsvæðið og fjármagn skorið niður. Þá telur bæjarráð lokunina vera svik við nýja þjónustumiðstöð í Bolungarvík sem var stofnuð árið 2016 til að bregðast við ítrekuðum niðurskurði á opinberri þjónustu í bænum. Þá bendir bæjarráð á að með lokun útbúsins sé einnig verið að leggja niður þjónustu Tryggingarstofnunar, en þeir sem nýta sér hana séu fyrst og fremst eldri borgarar og öryrkjar. Bæjarráð hafnar því að aðgerð sýslumanns sé til að draga úr kostnaði þar sem húsnæðið sé eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu.

 

Starfsmenn láta af störfum

Í bréfi sýslumannsins á Vestfjörðum, Jónasar Guðmundssonar, til dómsmálaráherra segist hann harma að grípa þurfi til þessa úrræðis en eilífar kröfur um hagræðingu kalli á þessa að gerð. Í Bolungarvík er 1,85 % stöðugildi þar sem, auk almennra skrifstofustarfa, innheimtu vanrækslugjalds um skoðun ökutækja hefur verið sinnt. Starfsmennirnir tveir hafa, við þessi tímamót, kosið að láta af störfum hjá embættinu.

 

Frétt af ruv.is


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.